Innanhússþjálfun

c1

Kynning

Allt nýtt starfsfólk hjá STP fer í gegnum vikulangt kynningar- og þjálfunartímabil þar sem það kynnist fyrirtækinu, verkferlum þess og verkflæði, auk þeirra verkfæra sem notuð eru í daglegu starfsumhverfi þýðenda eða verkefnastjóra. Nýir starfsmenn fá einnig tækifæri til að fylgjast með einum af reyndari starfsmönnum starfshópsins og fræðast um hvern krók og kima framleiðsluferla STP með því að æfa sig á verkefnum.

Í kynningunni og þjálfuninni er lögð mikil áhersla á þýðingaforrit og hvernig má nota þau á sem bestan og skilvirkastan máta. Meðan á þjálfuninni stendur fræðast nýliðar um sögu og núverandi tæknistig þýðingatólanna á markaðinum, sem og beitingu þessara tóla í framleiðsluumhverfi þar sem hlutirnir þurfa að gerast hratt. Helsta markmiðið með áherslu okkar á þýðingaforrit í kynningunni og þjálfuninni er að hjálpa nýju starfsfólki að skilja og ná góðum tökum á helstu hugtökum, tilföngum og verkflæðum í því þýðingaforriti sem við notum helst, memoQ. Þegar meginreglurnar eru komnar á hreint er auðvelt fyrir jafnvel tiltölulega nýjan starfsmann að byrja að nota önnur þýðingaforrit, enda leggjum við mikla áherslu á færni starfsmanna í mismunandi forritum.

c1

Þjálfun þýðenda

Þýðendur hjá STP sinna þýðingaverkefnum á fjölmörgum sviðum og mismunandi textagerðum. Þeir nota mismunandi þýðingaforrit eftir því hvers eðlis verkefnið er og samkvæmt kröfum viðskiptavinarins. Reglulega er boðið upp á innanhússþjálfun, t.d. á sviðum hugbúnaðar-, fjármála- og lyfjaþýðinga, fræðslu um bestu starfsvenjur hvað varðar verkflæði og rannsóknir og kennslu í þýðingaforritum og öðrum hjálpartólum. Öll þjálfun og námskeið eru tekin upp og þeim fylgja leiðbeiningar og notendahandbækur sem bæði innanhússþýðendur og verktakar hafa aðgang að.

Þjálfun verkefnastjóra

Þjálfun verkefnastjóra hjá STP snýst einkum um skilvirka þjónustu við viðskiptavini og góða nýtingu þýðingaforrita við undirbúning þýðingaverkefna, sem og yfirburðafærni í úrlausn vandamála og úrræðaleit. Færni og þekkingu er miðlað með mánaðarlegum verkefnastjórafundum auk kynninga verkefnastjóra á verkefnum sem kröfðust sértækra úrlausna.

Flestir verkefnastjórar STP eru þjálfaðir þýðendur og þeir eru hvattir til að kynna sér ekki eingöngu þá hlið tækninnar og hjálpartólanna sem snýr að verkefnastjórnun heldur reyna líka að setja sig í spor þýðendanna og styðja við bakið á þeim í daglegum störfum þeirra.

c1

Þjálfun stjórnenda

Til að tryggja að við fylgjumst ávallt með framþróun í greininni sækja flestir stjórnendur STP reglulega viðburði innan atvinnugreinarinnar. Dæmi um þá eru ráðstefnur, hringborðsumræður, umræðufundir og vinnustofur. Við leitumst við að viðhalda góðu jafnvægi milli þeirrar ólíku færni sem er nauðsynleg í rekstri þýðingafyrirtækis, t.d. hvað varðar sölu, tækni, markaðssetningu, starfsmannahald, þekkingu, gæði og afköst. Til að grafast nánar fyrir um tiltekin svið sem við höfum áhuga á eða okkur þykja krefjandi notum við kennsluefni og sérfræðirit, auk þess sem við fáum stundum utanaðkomandi ráðgjafa til aðstoðar við að meta þekkingu okkar og frammistöðu og leiðbeina okkur í rétta átt. Við erum í nánum tengslum við endurskoðendur okkar og fjármálaráðgjafa fyrirtækisins til að gæta þess að fjármálum okkar sé ávallt stjórnað með hagsýni og ábyrgð að leiðarljósi.

c1

© 2016 Sandberg Translation Partners Ltd. Vefsvæði sett upp af Websites for Translators. Allur réttur áskilinn.